Meltingarkerfið

Ég lenti í því skemmtilega hlutverki að útskýra meltingarkerfið fyrir henni Ástu um helgina.  Eftir að hafa spurt hana einhverntíma út í hvort pissublaðran hennar væri að springa spurði hún mig í gær að því hvort hún væri með kúkablöðru.  Ég sagði svo ekki vera og útskýrði hvernig kerfið virkar í einfölduðu máli enda þekki ég þetta vel (Líffræði mannslíkamans eitt af því skemmtilegasta sem ég lærði í MH)  Ég sagði henni að maturinn færi í gegnum slöngu sem héti vélinda efst við hálsinn og svo væri maginn eins og hrærivél sem byggi til deig úr matnum og svo færi allt gumsið í þarmana og svo bara beint niður í rassinn.  Á leiðinni skaut ég því auðvitað að að til þess að fá ekki illt í magann mætti maður ekki stífla slönguna og það gerði maður með því að borða fjölbreyttan mat og mikið af grænmeti og drekka mikið af vatni.  Það þurfti ekki að bíða eftir áhrifum þessarar kennslustundar.  Ásta raðaði í sig grænmeti með öllum máltíðum gærdagsins og borðaði vel af öllu.  Þegar hún var búin að klára brauðsneiðina sína með lifrarkæfunni sem hún fékk í hádegismat stóð hún upp og sagði: “Ég ætla að fara að kúka brauðinu”.

Leave a Reply