Gullkorn

HEld áfram með gullkornin inni í blogginu flokkaðu undir gullmolar. Það er náttúrulega miklu sniðugra. Verst ég fattaði það ekki fyrr :)

Skráð í mars 2007
“Þetta er ömurlegt” heyrði ég tautað úr svefnherberginu hjá Atla áður en við fórum á fætur í morgun.
Greinilega þreyttur og ekki tilbúinn að fara á fætur.

Skráð í nóvember 2007
Helstu frasarnir hjá Atla þessa dagana:
“Já”
“Ég er isaella (risaeðla)”
“Ég er grallari”
“Ég er gaur”
“Ég er að stríða”
“Ég á hana”
“Kondu meðidda”
“Þú ert banani”
“Nei grín”

“Húkkulaði” sagði Atli og kom sér makindalega fyrir í fanginu á mér inni í stofu þegar hann sá Nigellu-þátt byrja í sjónvarpinu. Greinilega mjög hrifinn af öllum súkkulaðikökunum sem hún hefur bakað í þáttunum.

Skráð í október 2007
Í morgun við morgunverðarborðið sagði Ásta eftirfarandi við móður sína.
“Mamma þú ert með stóra bumbu” svo horfði hún á eftir mömmu sinni þegar hún fór að ná í mjólk í ísskápinn og sagði “þú ert líka með stóran rass…..fær maður stóran rass þegar maður er með barn í maganum?”

Skráð í september 2007
2.sept
Þegar Ásta kveikti á sjónvarpinu í morgun til að horfa á barnaefnið gólaði hún: “Ó nei þetta eru Stubbarnir og þeir eru á röngunni!” Ég lá inni í rúmi og velti fyrir mér hvað hún væri að meina og þá kom Elvar emjandi af hlátri inní herbergi. Hún hafði ss óvart kveikt á Stöð 2 sem við borgum ekki fyrir og var þal rugluð!

Þegar síðustu gestirnir voru farnir eftir afmælisveisluna fór hún á klósettið og sagði í leiðinni “Ohh ég er svo fín ég er næstum því bara ástfangin af sjálfri mér!”

Skráð í mars 2007
Ásta: Mamma þið eruð að fara í brúðkaup á morgun er það ekki.
Ég: Jú við erum að fara í brúðkaup.
Ásta: Hvað er það?
Ég: Það er þegar fólk giftir sig.
Ásta: Haaaa eruð þið að fara að gifta ykkur?
Ég: Nei við erum boðin í brúðkaup en það er annað fólk að fara að gifta sig.
Ásta: Já konungssonurinn bauð Öskubusku í brúðkaup.
Ég: Nei Öskubuska og konungssonurinn giftu sig og buðu vinum sínum í brúðkaupið.
Ásta: Já dvergunum 7!

Skráð í febrúar 2007
Vá hvað maður er búinn fylgast illa með upp á síðkastið. Stelpan farin að skrifa nafnið sitt og allt. Allavega þá sagði hún soldið fyndið í kvöld. Sibba amma passaði þau systkinin í gærkvöldi og Ásta sagði að hún hefði verið rosalega skemmtileg. “Hún gerði allt eins og ég sagði!” :)

Skráð í september 2006
Ásta við morgunverðarborðið “Marna amma er svo kramin…svo kramin…svo kramin í framan”. Var greinilega ekki alveg viss um að hún væri að nota rétta orðið en komst svo að þeirri niðurstöðu að þetta hlyti að vera rétt.
Ég (alveg að missa mig): “Ertu viss um að hún sé ekki bara krumpuð í framan?”
Ásta: “Já amma er svo krumpuð í framan en ég er með svo slétta húð.”

Ásta: “Mamma mig langar að verða svona stór eins og þú…..með svona mikinn rass…”
Ég: “Finnst þér að fallegt að vera með mikinn rass?”
Ásta: “Já.”

“Við erum ávöxtuð í herberginu” sagði Ásta mér um hvernig ávaxtastundin færi fram í leikskólanum. 

Skráð í ágúst 2006

Ásta var eitthvað lengi að koma sér út úr húsi og inn í bíl einn morguninn og ég var að verða of sein í vinnu og hún á leikskólann.  Ég var því frekar pirruð í skapinu.  Þegar við vorum að renna inn á bílastæðið í leikskólanum sagði Ásta: “Ertu ennþá með ljótan svip?” 

“Þetta er skemmtilegt homs” sagði Ásta þegar við keyrðum holóttan malarveg fyrir austan.

Skráð í júlí 2006

Ásta: “Þegar Atli fæddist út um klobbann á þér á spítalanum…var það ekki vont?”
Ég:”Jú það var soldið vont.”
Ásta: “Fórstu að gráta?”
Ég: “Nei ég fór ekki að gráta en ég emjaði svolítið.”
Ásta: “Áróra emjar aldrei.”

“Þetta er heilvíti stórt tré” sagði Ásta þegar ég náði í tréð sem við ætluðum að setja niður í nýgrafna holu í sveitinni. 

“Afhverju rennur vatnið stöðugt?” spurði Ásta þegar við gengum meðfram læknum í sveitinni. 

“Ég nenni ekki að vera Færeyingur” sagði Ásta fyrir helgi þegar hún átti að klæða sig.  Hún vildi nefnilega frekar fara í pils en klæða sig í buxur og stuttermabol sem við keyptum í Færeyjum. 

Skráð í júní 2006

20.06.2006

“Mamma ég er vel klædd í dag því það eru komma fimm gráður”.

2.06.2006

Ásta fékk nýtt tuskudýr í gær.  Kengurú með kengúrubarn í pokanum frá Sigrúnu frænku sem er nýbúin að vera í Ástralíu.  Kengúran er núna vinsælasta tuskudýrið.  Við foreldrarnir erum búnir að vera nokkuð harðir á því að Ásta fari alltaf með sama tuskudýrið með sér í leikskólann til að hafa í hvíldinni en í morgun sagði Ásta að hún ætlaði að taka kengúruna með.  Hún spurði mig hvort það væri ekki í lagi og ég sagðist ætla að hugsa málið meðan hún myndi klæða sig.  Þá kom hún til mín og sagði: “Ég skal hjálpa þér að hugsa”.  Það þarf ekki að spyrja að leikslokum.  Auðvitað fór kengúran nýja með á leikskólann.

Skráð í maí 2006

29.05.2006

Ásta við morgunverðarborðið:  “Mamma við sáum handagang í öskjunni í leikskólanum og askjan var með bandi.” 

20.05.2006

Ástu útgáfa af íslenska júróvisjónlaginu: “Ég er Siiiiilvía Nótt og þið haldið með mér, Silvía Nægtsjón, ég er ógeðslega töff”

Skráð í apríl 2006

29.04.2006

Ásta horfir út um eldhúsgluggan: “Mamma sérðu einhvern vígú bíl?”.
Ég: “Hvað er vígú bíll?”
Ásta: “Svona löggubíll.”
Greinilega ekki allsstaðar talað um ba-bú heldur líka ví-gú :)

15.04.2006
Eftirfarandi rann upp úr Ástu þegar við sátum inni í kofa uppí sveit og horfðum út um gluggann á vindmylluna sem snérist í rokinu: “Að snúa vindmyllu sem er biluð gerir engum gagn”. Hljómar eins og einhver spakmæli - Ekki beint fyndið en samt alveg ótrúlega fyndið að horfa á þriggja ára krakka segja þetta með svona alvörutón.

02.04.2006
Ásta: “Mamma þegar ég er orðin stærri fæ ég þá kannski annað lítið systkyni?”

Skráð í mars 2006

30.03.2006
Fór snemma í rúmið í gær. Dreymdi einhverja helv…. vitleysu um köngulær. Vaknaði þegar Elvar kom í rúmið seint og um síðir. Þegar ég var að festa svefn aftur gólar Ásta sturluð af hræðslu: “ÞAÐ ER KÖNGULÓ Á SÆNGINNI MINNI. KOMDU PABBI!!” Við mæðgur erum þokkalega vel tengdar. Dreymandi það sama.

22.03.2006
Ég og Ásta að fara út úr bílnum á leikskólanum í morgun.
Ásta: “Mamma ég elska þig.”
Ég: “Ég elska þig líka.”
Ásta: “Og ég elska þig líka.”

16.03.2006
Ásta og Elvar sitja við morgunverðarborðið og Atli situr í stólnum sínum og fylgist með þeim. Ég er einhversstaðar inni í herbergi að klæða mig.
Ásta (kallar): ” Mamma, Atli er búinn að kúka”.
Ég: “Hvað segirðu ertu að segja satt?”
Ásta: “Já, ætlaru ekki að skipta á honum?”
Ég: “Nei pabbi þinn er á vakt núna.”
Ásta (hlæjandi): “Pabbi, áfram með smjörið nú!”

3.03.2006
Svona telur Ásta: Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta, níu, tíu, ellefu, tólf, þrettán, fjórtán, fimmtán, sextán,fjörtján.

Skráð í febrúar 2006
27.02.2006
Ásta og Elvar voru að búa sér til smá glassúr á afgangsbollur bolludagsins. Elvar dró upp flórsykur og Ásta spyr “Hvað er þetta?”. “Þetta er flórsykur” svarar Elvar. “Ha FLÓÐsykur eins og FLÓÐhestur” segir Ásta með þungum áherslum. “Nei FLÓRsykur” segir Elvar. “Nú það var skrýtið” segir þá Ásta.

25.02.2006
Við fórum í sveitina í dag. Á leiðinni niður af Hellisheiðinni segir Ásta “Erum við bara að fara alveg niður á topp?” Ég leiðrétti hana og sagði að maður færi upp á topp en niður á botn. Hún var nú ekki alveg á þessu stelpan því hún vissi sko betur og við þrættum nokkra stund. Þá mundi ég eftir laginu Kalli litli könguló sem klifrar upp á topp og sagði Ástu sigrihrósandi frá því að Kalli litli könguló klifraði sko upp á topp en ekki niðrá topp. Þá gafst Ásta upp og sagði með áhugaleysi í röddinni “Allt í lagi það er rétt hjá þér. Maður fer upp á topp.” Þá var það útrætt. Eins og hún hefði bara verið að stríða mér eða eitthvað.

20.02.2006
Ég sat í sófanum í gær og gaf Atla að drekka. Þá settist Ásta við hliðina á mér í nærbolnum með stóra Alaska Grizzly bangsann sinn fletti upp bolnum og gaf bangsa brjóst. Svo ropaði hann og fékk hitt brjóstið og lagði sig svo á eftir :) Svo kúkaði hann “grænum gömlum kúk” og fékk hreina bleiu. Það var víst alveg hræðilega vond lykt af þessari bleiu og bangsi greyið var orðinn rauður á bossanum og þurfti að fá krem.

08.02.2006
Ég: “Hvenær heldurðu að pabbi komi heim?”.
Ásta: “Klukkan hálf tíu sextíu”.

05.02.2006
Elvar var slappur og lá sofandi í sófanum þegar við Ásta komum úr Hreyfilandi. Við ákvaðum að leyfa honum að sofa áfram og fengum okkur hádegismat. Þegar við vorum búnar sagði ég við Ástu “Voðalega er hann pabbi þinn eitthvað þreyttur”. Þá sagði Ásta “Já hann talar bara mmmm hmmmmmmm”.

02.02.2006
Ásta skreið upp í rúm þar sem ég var að gefa Atla í morgun og spurði hvort hún ætti að segja mér brandara. Ég sagði auðvitað já því hún hefur aldrei áður sagt mér brandara. Brandarinn var eitthvað á þessa leið. “Einu sinni var strákur sem átti heima í stórum bæ. Hann stóð í garðinum og þá kom stórt ljón. “Þú mátt ekki koma hingað” sagði strákurinn og þá trampaði tröllið í garðinum” innskot frá mér. “En hvað varð um ljónið”. “Ljónið kom og trampaði á grindverkinu og þá kom brandarinn og trampaði í grasinu. Þá er brandarinn búinn”.

01.02.2006
Ásta var heima hjá Steiney Þóru vinkonu sinni sem er 4 ára og býr í næsta stigagangi. Mamma hennar sagði mér að þær hefðu verið að spjalla saman. Steiney sagði “Ég nenni ekki að leika lengur” þá sagði Ásta “Ef þú vilt ekki leika gerist eitthvað fyrir þig”.

Ég var að fá mér seríós í morgunmat og Ásta sat á móti mér og var að borða grautinn sinn. Pakkinn var tómur svo ég náði í annan tvöfaldan pakka og opnaði hann og tók uppúr honum annan pokann. Þá sagði Ásta “Vá hvað hann er fullur, hann er undarlega fullur”.

Skráð í janúar 2006
28.01.2006
Í hádegismatnum var Ásta að biðja um mjólk að drekka. Ég bauð henni í gríni kaffi og þá svaraði hún: “Nei ég er ekki kona”. Þá spurðum við hvort það væru bara konur sem drykkju kaffi. Þá var svarið “Já konurnar á leikskólanum og mamma”.

22.01.2006
Ásta var búin að vera hálfóþekk við mig svo ég settist fyrir framan sjónvarpið og fór að glápa. Ásta kom til mín og bað mig að koma með sér á klósettið. Ég sagði henni bara að fara á klósettið og kalla á mig þegar hún væri búin eins og hún gerir venjulega en hún var alveg á því að ég ætti að koma með henni. Þegar ég neitaði aftur sagði hún “Skammastu þín, ef þú kemur ekki með mér, máttu ekki koma með mér….” Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Ég keypti mér nýja kápu á útsölu um daginn. Hún er dökkblá eða næstum svört á litin. Þegar Ásta sá kápuna mína sagði hún “Æðislega flott kápa. Svartur er ljótur litur.”

Stundum þegar Atli grætur inni í vöggu og við Elvar erum bæði upptekin bið ég Ástu að fara til hans og vera hjá honum í smá stund meðan ég klára það sem ég er að gera. Hún sest þá eða leggst við hliðina á honum og syngur með fullri raust fyrir hann frumsamdar vögguvísur þar sem textinn stjórnast umfram allt af því sem fyrir augu ber í nánasta umhverfi. Atli er sáttur við félagsskapinn en stundum er hávaðinn fullmikill og gráturinn minnkar ekki. Annars er hann ofsalega hrifinn af systur sinni. Hún er pottþétt skemmtilegasti fjölskyldumeðlimurinn að hans mati :)

8.12.2005
Ásta var að greiða á mér hárið í Breiðholti og ég þurfti að losna við hana því ég var að fara að gefa Atla. Ég sagði “farðu og greiddu pabba”. Þá sagði Ásta “nei ég greiði bara fullorðnum” og fór og greiddi afa sínum og svo Kára frænda.

Skráð í desember 2005
15.12.2005
“Díses” :D

5.12.2005
Elvar vill meina að Ásta sé að tileinka sér hina ýmsu frasa frá mér. Einn þeirra er “er það málið”. Hann var að keyra Ástu eitthvað um daginn og þá spyr Ásta “Eigum við að fara í BYKO, er það málið?”. Svo var hún að skrifa í Paint í gær og náði meðal annars að skrifa stafinn sinn. Svo gekk henni eitthvað illa að endurtaka leikinn og þá heyrði ég hana tauta “Nei þetta er ekki málið” og krassaði yfir allt saman. :)

4.12.2005
Ásta var að knúsa mig og sagði meða annars: “Mamma þú ert með svo æðislega slétt hár - og ógeðslega fínt nef”.

2.12.2005
Ásta var í baði og Atli sat í ömmustól og horfði á. Þá sagði Ásta “Mamma, ég er elskan þín og Atli er elskan hans pabba af því þeir eru strákar og við erum stelpur og Kári er strákur af því hann er með tippi og pissar í klósettið”.

Skráð í nóvember 2005

20.11.2005
Ásta skrapp á klósettið að pissa meðan við Elvar sátum frammi að borða kvöldmat. Áróra var með henni og hún spjallaði við hana á meðan. Við heyrðum hana segja “Pabbi er svo rosalega duglegur að smíða og mamma er svo rosalega dugleg að borða matinn sinn”.

10.11.2005
Ásta var orðin eitthvað svöng og sagði “mamma ég er svo svöng ég er alveg æpandi svöng”.

Skráð í október 2005

31.10.2005
Í öllum æsingnum sem fylgdi afmælisveislunni hennar Ástu, reif Ásta niður bangsímon borðann sem skreytir veggina á herberginu hennar. Ég tók ekki eftir þessu fyrr en seint um kvöldið þegar Ásta var að reyna að líma borðann upp aftur. Þegar ég kíkti inn í herbergið og sá til hennar sagði hún bara “Áróra gerði þetta”. Áróra hefur verið asni dugleg að gera prakkarastrik.

24.10.2005
Ég keypti mér svona dömu-innlegg í dag og þegar ég var að ganga frá pakkanum inn í skáp kom Ásta hlaupandi og sagði “Má ég skoða má ég skoða taubleiurnar þínar”. Ég leyfði henni að skoða, hún kíkti ofan í pakkann og sagði “Vá hvað þetta er flott þetta er alveg dásamlegt!”.

15.10.2005
Ásta var að skoða myndir hjá ömmu sinni og afa í Breiðholti og þar var ein mynd af Sigríði langömmu hennar. Þegar henni var sagt að langamma hennar væri dáin spurði hún “Afhverju” og við svöruðum “Afþví hún var orðin gömul” þá sagði Ásta. “Mamma er líka gömul og hún er með tásufýlu en hún deyr ekki”. Hvað átti þetta að þýða?? Er ég með táfýlu…er ÉG gömul…hmmm?

Núna nýlega voru íbúaskipti í íbúðinni beint fyrir neðan okkur. Í blokkina flutti stúlka sem heitir Solla. Þegar ég sagði Ástu frá því spurði Ásta: “Heitir hún kannski Solla stirða?”

Eldra
“Ég er á svipinn” sagði Ásta og gretti sig.  Hún meinti auðvitað: Ég er reið á svipinn.

Þegar leikskólinn var nýkominn í sumarfrí í júlí síðastliðin “birtist” Áróra allt í einu við baðvaskinn þegar Ásta var að bursta tennurnar eitt kvöldið. Áróra býr í “næstu blokk” og er vinkona hennar Ástu. Þær leika sér mikið saman og Áróra á sök á öllum prakkastrikum. Þegar leikskólinn byrjaði aftur sást Áróra ekki í smá tíma en kom svo aftur. Hún er ýmist stór eða lítil, systir eða vinkona.

Þegar Ásta fær kókómalt og kókómaltið kekkjast á yfirborðinu kallar hún kekkina “fugla”.

Einu sinni vorum við Ásta að spjalla eitthvað saman og þá sagði hún “Mamma þú ert með svo fallegt hár, þú ættir að fara í klippingu og fá þér krullur”.

Einhverntíma þegar við Ásta vorum að spekúlera af hvaða kyni fólk væri, hverjir væru konur og menn, stelpur og strákar þá spurði ég hana t.d. “Hvað er amma” þá svaraði hún ” Hún er kona”. Þegar ég spurði hana hvað Rúna á leikskólanum væri var svarið einfalt “Rúna er snillingur”.

Ástu finnst ótrúlega spennandi að leika sér í byssuleik - eitthvað sem hún lærði á leikskólanum. Hún notar hvað sem er, herðatré, kústa eða bara legókubba og gengur um og segir “Byss, byss byss”.

Þegar Ásta var 2ja ára fórum við með hana í mælingu og vigtun á heilsugæsluna. Áður en við fórum inn í skoðunarherbergið þvoði ég á mér hendurnar frammi þar sem börnin eru klædd úr. Þá spurði Ásta “Mamma varstu að kúka?” Þegar við fórum inn til læknisins sem heitir Sigríður flissaði hún og sagði “Ég sé að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af málþroskanum”.

Hérna er eitthvað gamalt sem ég skrifaði á heimasíðunni hennar Ástu fyrir tíma “bloggsins”. Ágætt að halda þessu til haga.

September 2003

Nú er ég orðin 10 mánaða orðin 70.5 cm og 8375 grömm. Læknirinn var nú ekki alveg nógu ánægður. Vildi að ég væri ennþá stærri en það hlýtur nú að koma. 10. september komu loksins tvær tennur í viðbót og nú í efri góm, það var frekar óþægilegt. Nú er ég í því að gera mömmu og pabba brjáluð með því að brýna þær svo það sargar í þeim. Ótrúlega spennandi hljóð!

Júní 2003

Mamma er búin að vera eitthvað ódugleg að taka myndir þennan mánuðinn - byrjaði ekki fyrr en hann var næstum hálfnaður. Ég er byrjuð að geta setið sjálf og leikið mér þó ég missi stundum jafnvægið. Það er nú líka dáldið skemmtilegt að missa jafnvægið ef ég lendi á einhverju mjúku. Amma passaði mig um daginn og við fórum að róla - það var rosalega gaman en mamma var samt ekki með myndavél þá. Svo er ég farin að æfa mig dáldið að tala segi mammammammammma og pabbabbabb. Já og svo er ég komin með 2 tennur. 11. júní fékk ég framtönn í neðri góm og 13. júní fékk ég aðra framtönn í neðri góm en en samt ekki við hliðina á þessari fyrstu. Hana vantar ennþá svo ég er með smá skarð ;))
Jæja þá er þriðja tönnin búin að fylla í skarðið. Hún kom 21. júní á Jörfagleðinni.