Mamma sextug

Mikið á ég merkilega mömmu. Birtist alveg heil grein um hana í mogganum í dag í tilefni dagsins.

Greinin

Mamma sextug

Í TILEFNI sextugsafmælis síns hefur Sigurbjörg Gísladóttir það náðugt í Portúgal með eiginmanni sínum, Hreini Hjartarsyni. „Við erum búin að vera hér í litlum bæ sem heitir Cascais og ætlum yfir til Lissabon að skoða borgina,“ segir Sigurbjörg um hvernig hún ætli að verja afmælisdeginum. Hún segir yndislegt veður vera í Portúgal, glampandi sól og heiðskíran himinn með hæfilegri golu svo ekki verði of heitt.

Aðspurð segist Sigurbjörg eiga of marga eftirminnilega afmælisdaga svo erfitt sé að nefna einn sérstakan. „Ég hef gjarnan verið í góðum félagsskap með vinum og vandamönnum á þessum dögum,“ segir hún en hvað mikil veisluhöld varðar segist Sigurbjörg hafa haldið ansi myndarlega veislu þegar hún varð fimmtug.

Áhugamál Sigurbjargar eru fjölbreytt. T.d. hefur hún gaman af ferðalögum, skíðaferðum, bridds, líkamsrækt, garðrækt og gróðri. Hún segist vera með lítinn garð heima en hún lærði aðeins um gróður þegar hún var í efnafræðinámi á sínum tíma. „Þá var grasafræði aukaáhugamál.“ Sigurbjörg og Hreinn eiga þrjú börn; Sigrúnu, Kristínu og Kára og fjögur barnabörn; Ara, Ástu, Atla og Eygló.

Leave a Reply