Óþægilegur sannleikur
“Hver kannast ekki við” brandarann um muninn á því að eignast fyrsta, annað eða þriðja barn. Að þegar maður á eitt barn skipti maður um bleiur á kortersfresti, sjóði snuð í hvert sinn sem barnið missi það út úr sér osfrv. Við annað barn skipti maður um bleiu mun sjaldnar, láti sér nægja að skola snuðin ef þau detta á gólfið. Við þriðja barn sé svo aðeins allra nauðsynlegustu þörfum barnsins sinnt og ekki skipt um bleiu fyrr en hún er farin að torvelda hreyfingar barnsins eða farin að nema við gólf. Sveimér þá ef þetta er ekki bara nokkuð rétt. Ég skutlaði stóru börnunum mínum í bað áðan sem er svosem ekki í frásögur færandi en bleian hans Atla…já…ekki fjarri þessari lýsingu. Hún var kannski ekki farin að nema við gólf en allavega komin niður á hné og ég stóðst ekki mátið og vigtaði hana. Hún reyndist vera tæp 400 grömm. 3 prik fyrir mig fyrir að vera svona dugleg að spara í kreppunni. Ég held sveimér þá að Atli hafa þraukað þennan dag á 3 bleium. Það gera ca 38 krónur ef maður reiknar með VIP bleium úr Krónunni þeirra eðal lágvöruverslun í Lindum en alveg helmingi meira ef maður reiknar með fínni bleium. Já svona er að eiga tvö bleiubörn.