Mánaðargömul Eygló

desember 21st, 2007

Þá er Eygló orðin mánaðargömul og búin að breytast ansi mikið - sérstaklega síðustu vikuna. Aðeins farin að brosa og “spjalla” og fylgist vel með. Vigtin í gær sýndi 4340 grömm sem þýðir að hún bætti við sig nákvæmlega 1 kílói á þessum 4 vikum, 250 grömm á viku. Gæti ekki verið betra.

Ari massi skellti sér á vigtina í leiðinni og var tæp 8500 grömm, bætti við sig 1500 grömmum á þessum sama mánuði.

Já það er engin undanrennuframleiðsla í þessari fjölskyldu.

Atli mamma

desember 19th, 2007

Nú er heldur að rofa til á heimilinu. Atli er skárri í skapinu og farinn að sína skemmtilega mömmutakta mér til mikillar undrunar og ánægju. Í gær átti hann rólega stund með Baby Born dúkkunni hennar Ástu sem hét þá litla Eygló og gaf henni brjóst og snuð, skipti um bleiu og svæfði hana í vagninum.
Atli
Ég sé því fram á bjartari tíma framundan og hver veit nema jólaskapið komi þrátt fyrir allt.

Eygló fær heimsókn frá Fjólu hjúkrunarkonu á morgun í 4 vikna mælingu. Ari ætlar að fá að smella sér á vigtina í leiðinni. Það ríkir mikil spenna á fá að heyra kílóatöluna. Komið veðmál í gang.

Fleiri nóvembermyndir

desember 10th, 2007

Setti nóvemberalbúm inn á síðurnar hjá Ástu og Atla í dag, ma myndir frá afmælinu hennar Ástu. Bætti líka nokkrum í albúmið hjá Eygló. Desembermyndir svo væntanlegar á næstunni.

Eygló dafnar annars mjög vel og er að þyngjast alveg ótrúlega vel. Var orðin 3840 grömm á föstudaginn (15 daga gömul). Hún hefur hingað til sofið mjög vel á nóttunni. Er að vakna rétt undir morgun kl 6-8 fer aðeins eftir því hvenær við förum að sofa. Í gærkvöldi byrjaði hún að sýna einhverja smá kveisutakta og hefur verið soldið erfið núna seinni partinn. Vona að þetta sé nú bara eitthvað tilfallandi - kannski vaxtarkippur - vona það. Okkur finnst við alveg hafa fengið okkar skerf af kveisubörnum. Atli er búinn að eiga dáldið erfitt síðustu vikuna. Það er eitthvað sambland af þessari nýjustu viðbót við fjölskylduna og svo er hann búinn að vera hálfslappur, með kvef og exem og svo fékk hann hita í nótt en virðist vera hressari í dag.

Annars þá er Elvar á leiðinni út í rokið núna að koma bílnum í skjól. Það er svo hvasst hérna hjá okkur að bíllinn er við það að hreyfast í verstu hviðunum. Forstofan okkar er full af vatni þar sem veðrið stendur beint upp á hurðina. Svo er svo mikill undirþrýstingur í íbúðinni að maður fær hellu fyrir eyrun í hviðunum þegar maður er inni í þvottahúsi :S

Atli leikskólastrákur

desember 10th, 2007

Nú er Atli byrjaður á leikskólanum hennar Ástu, Fífusölum. Aðlögunin í síðustu viku gekk svona líka vel, eins og hann hefði aldrei gert annað. Greinilega meira en tilbúinn að byrja á leikskóla þó Ólöf dagmamma hafi verið alveg frábær í alla staði. Atli þurfti ekkert á Elvari að halda á aðlögunartímanum. Hljóp sjálfur inn á deild á undan Elvari og fór strax að leika sér, enginn grátur og ekkert vesen. Svo byrjar fyrsta heila vikan auðvitað á veikindum en hann hristir það örugglega fljótt af sér af sér enda svo spennandi að fá að fara í leikskólann á morgnana samferða Ástu.

Ari og Eygló

desember 6th, 2007

Hér eru þau sameinuð loksins frændsystkynin á Íslandi. Tveggja mánaða aldursmunur. Skyldi Eygló verða orðin svona myndarleg eftir 2 mánuði.
Ari og Eygló

Tölur

desember 2nd, 2007

6 daga skoðunin hjá Eygló á þriðjudag (27. nóv) kom ljómandi vel út.
Hún hafði bætt á sig 95 grömmum frá fæðingu og var orðin 3435 gr.

Fjóla frá heilsugæslunni kom svo og vigtaði hana á föstudaginn (30.nóv) og þá hafði hún bætt á sig 135 grömmum í viðbót.
Þyngd 3570 grömm
Höfuðmál 35,6 cm

Ég náði hinsvegar álíka glæsilegum árangri í hina áttina með því að klæða mig í sjúkrasokka að læknisráði til að losna við bjúg. Ég losnaði við 5 kg á þremur dögum og hef aldrei verið með glæsilegri leggi.