Nýyrði dagsins er lýsingarorðið “Skrælvel”

júlí 7th, 2009

Þegar ég kom á leikskólann að sækja Atla kom hann skoppandi glaður á móti mér og sagði “Mamma ég borðaði alveg skrælvel í dag”.

Vegna þess hversu stoltur hann var af þessum árangri sínum túlka ég það þannig að þetta muni hafa merkinguna að borða mjög vel.

Það sem veltur upp úr þeim stundum :)

Stóri koddinn

maí 4th, 2009

Atli kom fram í stofu eftir að hafa verið farinn að sofa og sagðist ekki geta sofnað.
Atli: “Mamma hvar sefur þú?”
Ég: “Ég sef í rúminu mínu.”
Atli: “En hvar sefur pabbi?”
Ég: “Hann sefur í sínu rúmi, sama rúmi og mamma.”
Atli: “Það geta líka tveir sofið í mínu rúmi afþví ég á svo stóran kodda.”
Ég: “Á ég þá að koma og kúra aðeins hjá þér?”
Atli: “Jáhhh :)”

Janúarmyndir

mars 17th, 2009

Betra seint en aldrei.
Uppfærði albúm Eyglóar og Atla með janúarmyndum.

Skaup molar

janúar 4th, 2009

Atli fékk að fara í tölvuna í dag. Var að teikna í Paint. Ásta kom að skoða hvað hann væri að gera og hann sagði “sjáðu ég var að teikna Fokking Fokk.

Þetta kemur út úr því að leyfa krökkunum að horfa með sér á Áramótaskaupið.

Nýjar myndir

nóvember 24th, 2008

September og októbermyndir komnar á síðurnar hjá Atla og Eygló.

Og mánuður til jóla hó hó hó!!!!!

Eygló 1 árs í dag!

nóvember 21st, 2008

Þá er músin mín orðin 1 árs.
Eygló 1.árs
Þarna er hún nývöknuð og sæt við morgunverðarborðið einhverntíma í vikunni. Hún nældi sér í tvær tennur í gær. Þær voru í neðri góm, augntennur. Það var nú alveg kominn tími á að það færi eitthvað að gerast í þessum málum. Markmið vikunnar er að læra að ganga í stífum skóm en það hefur verið að valda henni vandræðum í útiverunni hjá Ólöfu dagmömmu. Henni finnst kuldaskór glatað fyrirbæri og algjör móðgun að vera sett í þá. Stendur bara grafkyrr þar til hún frýs við jörðina eða þá Ólöf smellir henni í mjúku robeez stígvélin.
Annað fréttnæmt er að Atli tók sig til og hætti með bleiu síðustu helgi. Langþráðu markmiði náð með nýjum aðferðum. Veit ekki hvort okkar er ánægðara, ég eða Atli. Hann er allavega alveg í skýjunum með þetta - og skapið léttara.

Nýjar myndir

október 7th, 2008

Ágústmyndir á heimasíðum Atla og Eyglóar.

Ógeð?

október 2nd, 2008

Ég stenst bara ekki mátið. Vona að þetta særi ekki blygðunarkennd þeirra fáu sem detta hérna inn.

Áður en við Atli lögðum af stað í morgun fór ég á klósettið eins og gengur. Atli kemur inn til mín meðan ég sit þar og verður starsýnt á ákveðinn líkamshluta, bendir og segir: “Hvað er þetta ógeð….hvað er þetta svarta?” Ég næ að halda niðri í mér hlátrinum enda örlítið móðguð yfir þessum viðbrögðum og svara: “Þetta er hár.” Hann lítur upp á hárið á hausnum á mér, aftur niður og spyr: “Datt það af hausnum á þér?”

Nokkrir góðir

ágúst 21st, 2008

Atli: “Mamma þú mátt ekki snerta bláu sögina, aþþí hún er svo hættuleg.”
Atli: “Pabbi má snerta hana aþþí hann er fullorðinn.”
Ég: “En ég er líka fullorðin.”
Atli: “Nei þú ert bara smákrakki!”

Þegar Atli fær ekki það sem hann vill segir hann gjarnan: “Þá ert þú leiðinlegst í öllum heiminum!”

“Það má skjóta gæsir aþþí þær eru óféti!” sagði Atli þegar hann reyndi að skilja afhverju pabbi hans var að skipuleggja gæsaveiði haustins.

“Þetta er jarðskjálfasvæði” sagði Atli og leit út á bílaplanið fyrir framan húsið.

Óþægilegur sannleikur

júlí 7th, 2008

“Hver kannast ekki við” brandarann um muninn á því að eignast fyrsta, annað eða þriðja barn. Að þegar maður á eitt barn skipti maður um bleiur á kortersfresti, sjóði snuð í hvert sinn sem barnið missi það út úr sér osfrv. Við annað barn skipti maður um bleiu mun sjaldnar, láti sér nægja að skola snuðin ef þau detta á gólfið. Við þriðja barn sé svo aðeins allra nauðsynlegustu þörfum barnsins sinnt og ekki skipt um bleiu fyrr en hún er farin að torvelda hreyfingar barnsins eða farin að nema við gólf. Sveimér þá ef þetta er ekki bara nokkuð rétt. Ég skutlaði stóru börnunum mínum í bað áðan sem er svosem ekki í frásögur færandi en bleian hans Atla…já…ekki fjarri þessari lýsingu. Hún var kannski ekki farin að nema við gólf en allavega komin niður á hné og ég stóðst ekki mátið og vigtaði hana. Hún reyndist vera tæp 400 grömm. 3 prik fyrir mig fyrir að vera svona dugleg að spara í kreppunni. Ég held sveimér þá að Atli hafa þraukað þennan dag á 3 bleium. Það gera ca 38 krónur ef maður reiknar með VIP bleium úr Krónunni þeirra eðal lágvöruverslun í Lindum en alveg helmingi meira ef maður reiknar með fínni bleium. Já svona er að eiga tvö bleiubörn.