Nýjar myndir

nóvember 11th, 2007

Októberalbúm komin á heimasíðurnar hjá Ástu og Atla.

5 ára

nóvember 1st, 2007

Hún Ásta er 5 ára í dag (eða gær reyndar klukkan orðin svona margt). Vaknaði eldhress og sýndi mér hvað fæturnir og hendurnar hefðu lengst mikið um nóttina. Svo fann hún risastóran pakka inni á borði hjá sér þegar hún kveikti ljósið en í honum reyndust vera allskyns lækningatól fyrir hressa krakka. Frammi í stofu beið svo pakki frá Atla sem geymdi skemmtilegt föndurdót. Til tilbreytingar skelltum við okkur öll saman í kvöldmat á eðalveitingastaðinn McDonalds, við mikinn fögnuð, enda rómaður fyrir skemmtileg barnabox og leiksvæði. Það var ánægð 5 ára stelpa sem lagðist á koddan í kvöld og ekki varð ánægjan minni þegar dyrabjallan hringdi um hálf tíu leytið og í dyrunum stóð pósturinn með afmælispakka alla leið frá Ameríku, fjarstýrðan jeppatrukk sem verður prufukeyrður strax eftir leikskóla á morgun. Afmælisveislurnar verða svo haldnar á sunnudaginn, ein fyrir leikskólastelpurnar og ein fyrir fjölskylduna.

Nýjar myndir

október 29th, 2007

Búin að gera upp septemberalbúmin. Tenglar hér hægra megin.

Óumbeðin hreinskilni

október 3rd, 2007

Í morgun við morgunverðarborðið sagði Ásta eftirfarandi við móður sína.
Mamma þú ert með stóra bumbu” svo horfði hún á eftir mömmu sinni þegar hún fór að ná í mjólk í ísskápinn og sagði “þú ert líka með stóran rass…..fær maður stóran rass þegar maður er með barn í maganum?

Ágústmyndir

september 22nd, 2007

Ágústmyndir komnar í albúmin hjá Ástu og Atla.
Og já eitt gullkorn frá Atla. Við Atli fórum í Sorpu á Dalvegi í dag og þegar við vorum að keyra fram hjá MacDonalds, sem hann hefur aldrei nokkurn tímann komið inn á, gólaði hann “Hey Dónnad” og aftur það sama á leiðinni til baka. Þarna trúi ég að sumir séu að herma eftir stóru systur. Vissi bara ekki að hann tæki svona vel eftir.

Afmæliskorn

september 2nd, 2007

Svona í tilefni af afmælunum okkar Atla í dag og á þriðjudaginn hrundu gullkornin af henni Ástu:

Þegar hún kveikti á sjónvarpinu í morgun til að horfa á barnaefnið gólaði hún: “Ó nei þetta eru Stubbarnir og þeir eru á röngunni!” Ég lá inni í rúmi og velti fyrir mér hvað hún væri að meina og þá kom Elvar emjandi af hlátri inní herbergi. Hún hafði ss óvart kveikt á Stöð 2 sem við borgum ekki fyrir og var þal rugluð!

Þegar síðustu gestirnir voru farnir eftir afmælisveisluna fór hún á klósettið og sagði í leiðinni “Ohh ég er svo fín ég er næstum því bara ástfangin af sjálfri mér!”

Bumba

júlí 12th, 2007

20vikurFann þennan fína teljara sem sést á hliðarlínunni á síðunni hjá Magnúsi og Sunnu. Sniðugt. Meðfylgjandi mynd er tekin 21. viku - komin með ístru. Já nú er þetta hálfnað og vel rúmlega það. 18. nóvember er dagurinn.

Sumarfrí byrjar eftir 1 dag. Veit ekki hvort ég get beðið svo lengi……líka alveg týpískt að góða veðrið sem er búið að hrjá landsmenn núna síðustu vikurnar verði akkúrat búið á morgun og það rigni það sem eftir er sumars.

Er þessa stundina að setja inn nýjar myndir á síðurnar hjá krökkunum. Linkar hér til hliðar.

Þoli ekki húsbýla og fellihýsi

júní 24th, 2007

Ætlaði að vera sniðug í kvöld. Lagði snemma af stað úr sveitinni með krakkana til að koma þeim á skikkanlegum tíma í rúmið til að rugla ekki svefnrútínunni. Ferð sem á venjulegum degi tekur einn og hálfan tíma tók ss tvo og hálfan í dag og þessum auka klukkutíma var eytt á leiðinni frá afleggjaranum að Hellisheiðarvirkjun í bæinn. Skemmtilegt. Að sjálfsögðu sváfu börnin eins og englar þennan auka klukkutíma og kannski rúmlega það. Nú er klukkan að verða 23 og þau liggja vakandi í sitthvoru rúminu og hvorugt getur sofnað. Að öðru leyti var þetta mjög góð helgi í sveitinni. Vatnlaust - bæjarlækurinn uppþornaður og klósettið gekk á vatnsfötuleiðangrum Kára, Elvars og pabba. Hífandi rok og sól á laugardeginum, skýjað að mestu í dag en fór upp í 22 stiga hita. Get ekki beðið eftir að komast í sumarfrí. Ef ég hefði verið í fríi væri ég sko að njóta blíðunnar í sveitinni. Fjarri húsbíla- fellihýsaógeðistraffíkinni á þjóðvegum landsins. Mér finnst það ætti að banna akstur þessara faratækja nema á ákveðnum tímum sólarhringsins ss eftir miðnætti til svona 6 á morgnana. Þá er þetta lið ekki að eyðileggja ferðalögin og svefnrútínuna fyrir okkur hinum.

Nýjar myndir

maí 23rd, 2007

Þar sem ég er komin með leigjanda hef ég verið alveg löglega afsökuð síðustu vikurnar að hafa ekki uppfært myndaalbúmin. Sófinn hefur verið meira freistandi. Ég tók mig samt til í kvöld og setti inn febrúar,mars og apríl albúm á síðurnar hjá krökkunum. Ásta, Atli

Gullkorn

mars 30th, 2007

Ásta: Mamma þið eruð að fara í brúðkaup á morgun er það ekki.
Ég: Jú við erum að fara í brúðkaup.
Ásta: Hvað er það?
Ég: Það er þegar fólk giftir sig.
Ásta: Haaaa eruð þið að fara að gifta ykkur?
Ég: Nei við erum boðin í brúðkaup en það er annað fólk að fara að gifta sig.
Ásta: Já konungssonurinn bauð Öskubusku í brúðkaup.
Ég: Nei Öskubuska og konungssonurinn giftu sig og buðu vinum sínum í brúðkaupið.
Ásta: Já dvergunum 7!