Bókaormur prófessor

janúar 19th, 2009

Eygló er dugleg að lesa. Það er hennar uppáhaldsiðja. Hún er búin að eignast lesaðstöðu í horninu á stofunni og hefur þar sinn hægindastól og bókakassa.
Bókaormur
Þegar maður er duglegur að lesa er maður fljótur að læra ný orð enda fer orðalisti prófessors Eygló ört stækkandi:
gekka = drekka
út = ég vil fara út, hleyptu mér út
bibbi = nebbi
hæ = hæ, hár/eyra
gó = skór
voffi = hundur
mimi = kýr og lamb
labba = labba
njamminjamm= þetta er algjört sælgæti
nanana= banani
duduuu=ég er týnd komdu og finndu mig
brrrr=bíll
duddadæ=Stubbarnir
heitt = heitt
mamma=mamma/amma
babbi= pabbi
afi = afi
dót = dót
addí = Atli/Ásta
bíbí = fugl og margt annað áhugavert
vááá = Vá vá hvað þetta er flott
le/lella= lesa
api=api
húa=húfa
deppa=stelpa
neineineineineineinei=ég er í frekjukasti komdu með þetta dót annars öskra ég

Nýjar myndir

nóvember 24th, 2008

September og októbermyndir komnar á síðurnar hjá Atla og Eygló.

Og mánuður til jóla hó hó hó!!!!!

Eygló 1 árs í dag!

nóvember 21st, 2008

Þá er músin mín orðin 1 árs.
Eygló 1.árs
Þarna er hún nývöknuð og sæt við morgunverðarborðið einhverntíma í vikunni. Hún nældi sér í tvær tennur í gær. Þær voru í neðri góm, augntennur. Það var nú alveg kominn tími á að það færi eitthvað að gerast í þessum málum. Markmið vikunnar er að læra að ganga í stífum skóm en það hefur verið að valda henni vandræðum í útiverunni hjá Ólöfu dagmömmu. Henni finnst kuldaskór glatað fyrirbæri og algjör móðgun að vera sett í þá. Stendur bara grafkyrr þar til hún frýs við jörðina eða þá Ólöf smellir henni í mjúku robeez stígvélin.
Annað fréttnæmt er að Atli tók sig til og hætti með bleiu síðustu helgi. Langþráðu markmiði náð með nýjum aðferðum. Veit ekki hvort okkar er ánægðara, ég eða Atli. Hann er allavega alveg í skýjunum með þetta - og skapið léttara.

11 mánaða

október 28th, 2008

Þá er hún litla mín orðin 11 mánaða og gott betur. Gat ekkert skrifað á réttum tíma sökum þess að verið var að færa vefinn yfir á nýjan og betri server. En nú hef ég enga afsökun. Best að taka status fyrir bókhaldið.
Prakkaramús í baði
Tennur: Ennþá bara 8 tennur en það lítur út fyrir að það sé eitthvað að fara að gerast í þeim efnum bráðlega.
Skapgerð: Alveg yndisleg, brosmild og kát alltaf hreint og soldill prakkari. Hörkutól sem lætur ekki vaða yfir sig. Það lærir maður þegar maður á eldri systkini.
Orð: Nú eru mamma og pabbi og datt alveg komin á hreint - Mjög skýr og svo mjög skemmtilegt “dojdojdojdoj”, “núnúnúnúnú”, “dúbídúbídúbí” , “dædædædúdúdú” og fleira í þeim dúr.
Hreyfing: Labbar um allt, mjög stöðug og er farin að spretta úr spori. Prílar soldið mikið.
Aðaláhugamál: Uppþvottavélin, prentarinn, þvottavélin, skúffur og skápar, fjarstýringar og símar.
Matur: Algjör mathákur og borðar nánast allt og yfirleitt meira en systkini sín.
Svefn: Sefur í 3-4 tíma á daginn en vesenast dáldið á nóttunni. Frekar þreytandi, en fyrirgefst alltaf þegar hún setur upp sparibrosið sitt (sjá mynd) og knúsar mann :)

Svo erum við búin að læra um vírus-sjúkdóm sem heitir “Hand, foot and mouth disease” upp á enskuna og ég ætla ekkert að vera að setja íslensku þýðinguna hér enda er hún ferlega ljót. En Eygló er ss búin að prófa þennan vírus og massaði hann alveg hreint án þess að verða nokkuð lasin. Fékk blöðrur á tærnar og fingurnar og aðeins kringum munninn, svaf kannski örlítið illa á nóttunni en að öðru leiti alveg eldspræk og var ekkert að taka sér veikindafrí.

Nýjar myndir

október 7th, 2008

Ágústmyndir á heimasíðum Atla og Eyglóar.

Labbilabbilabb

september 29th, 2008

Eygló er núna smátt og smátt að yfirstíga óttann og tekur fleiri og fleiri skref með hverjum deginum án þess að halda sér í. Það má því segja að hún sé bara farin að labba. Það er samt fljótlegra að skríða ennþá :)

10 mánaða

september 24th, 2008

Vá hvað tíminn líður.

Eygló fór í skoðun í gær og niðurstaðan var þessi:
Lengd: 71 cm
Þyngd: 8300 grömm

Rúmt kíló á þessum tveimur mánuðum sem segir mér bara eitt. Eygló finnst matur svo miklu miklu betri en brjóstamjólk. Hún var að ná ca 100 grömmum á mánuði fram að síðustu mælingu. :)

Nú er maður líka kominn í aðlögun til Ólafar dagmömmu og þar er bara gaman. Ekkert vesen fyrir utan það að nú má búast við því að næstu 1-2 mánuði verði hún meira og minna veik meðan ónæmiskerfið í henni er að kynnast dagmömmubakteríunum. Við þekkjum það. Eins gott að Elvar er ekki búinn að klára fæðingarorlofið sitt.

Á hlaupum

september 14th, 2008

Nýjasta æðið hjá Eygló er þessi Brio vagn sem ég dró upp úr geymslunni í gær. Var næstum búin að gleyma að þetta væri til. Nú hleypur Eygló um hlæjandi með vagninn á undan sér.
Á hlaupum

Of mikið að gera

september 10th, 2008

Í dag gerði ég tilraun til þess að aflæsa hurðinni á sameigninni með fjarstýringunni á bílnum…..TVISVAR…og skildi ekkert í því afhverju hurðin var læst þegar ég reyndi að opna hana. Hvað segir það um mig. Já er ekki búin að sofa nóg.

Of mikið að gera hjá mér þessa dagana til að skrifa hérna enda er maður ekkert heima til að fylgjast með hvernig ungviðið dafnar. Barnið búið að:
- taka fyrsta skrefið óstudd
- læra að segja pabbi (og mamma auðvitað)
- læra að segja bless og bæ bæ
- læra að vinka eins og hún fái borgað fyrir það
- mastera hvernig hægt er að halda foreldrunum uppteknum í því að sópa allan daginn því hún er mesti sóði sem fyrirfinnst norðan alpafjalla.

Allavega þá þarf að sópa daglega undan og úr stólnum hennar Eyglóar því sem nemur sæmilegri máltíð hjá vel settri fjölskyldu.

Over and out

Nýjar myndir

ágúst 7th, 2008

Ég hafði það af að setja inn júní og júlí albúm hjá Eygló í kvöld.
Update: komin sömu albúm hjá Atla.

Ef Eygló væri vél væri búið að henda henni. Litla matargatið borðar þyngd sína á hverjum degi án þess að það hafi nokkur sjáanleg áhrif á holdarfarið. Alltaf jafn fislétt og lipur og æðir um allt. Ofvirk segja sumir. Sjáum til með það.

Tungumálasérfræðingar líka búnir að greina heil 3 orð síðasta mánuðinn, DATT, ATTA (Ásta) og ATTI (Atli).